Íslendingurinn myndi henta Leeds

Hjörtur Hermannsson í leik Íslands og Albaníu á Laugardalsvellinum í …
Hjörtur Hermannsson í leik Íslands og Albaníu á Laugardalsvellinum í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamennirnir Phil Hay og Tom Worville fjölluðu um Leeds United í The Athletic í morgun en knattspyrnufélagið sögufræga er snúið aftur í úrvalsdeildina eftir 16 ára hlé. Þeir tveir þekkja vel til hjá félaginu og hafa fjallað rækilega um það undanfarin ár.

Eins og gengur og gerist kaupa lið gjarnan leikmenn og reyna að styrkja leikmannahópinn á milli tímabila og í greininni er nokkrum hugmyndum varpað fram en eitt nafn sem ber á góma er Hjörtur Hermannsson, íslenski landsliðsmaðurinn sem spilar með Bröndby í Danmörku.

Er honum líkt við miðvörðinn Ben White sem var að láni hjá Leeds síðasta vetur frá Brighton. White er nú kominn aftur til Brighton og alls óvíst hvort Leeds geti notið krafta hans aftur næsta vetur. Hjörtur er 25 ára Fylkismaður sem hefur leikið í Danmörku undanfarin fjögur ár en hann á 14 A-landsleiki fyrir Ísland.

mbl.is