Úrskurðurinn mikið reiðarslag fyrir UEFA

David Silva og stjórinn Pep Guardiola.
David Silva og stjórinn Pep Guardiola. AFP

Manchester City sýndi af sér ósvífið skeytingarleysi gagnvart rannsókn UEFA á meintum brotum félagsins á fjármálareglum sambandsins (FFP) en þó taldist ekki sannað að félagið hefði blekkt UEFA með því að gefa ekki upp að stór hluti af öfluðum styrktarsamningum hefði í raun komið frá eigandanum Sheikh Mansour.

Sú varð niðurstaða Alþjóðaíþróttadómstólsins (CAS) í síðasta mánuði sem aflétti tveggja ára banni Manchester City frá Evrópukeppnum og lækkaði sekt félagsins úr þrjátíu milljónum evra niður í tíu. Dómstóllinn birti í vikunni 93 blaðsíðna úrskurðinn og segir þar að þótt City hafi vanrækt þá skyldu að sýna samvinnuþýði við rannsókn málsins hafi þau sönnunargögn sem UEFA lagði fram ekki þótt nægileg til að sanna sekt félagsins. En hvað á City að hafa gert og hvað er CAS og FFP?

Fjármálaleg lyfjanotkun

Alþjóða íþróttadómstóllinn er alþjóðlegur gerðardómur með höfuðstöðvar í Lausanne í Sviss. CAS er sjálfstæður dómstóll og er æðsta dómstig sem fjallar um lögfræðileg álitaefni og ágreining á sviði íþrótta á heimsvísu. Dómstóllinn er almennt lokadómstig ákvarðana og úrskurða innan íþróttahreyfingarinnar.

Í stuttu máli má svo segja að FFP, eða „financial fair play“, snúist um það að knattspyrnufélög þurfa að afla sér tekna sem standa undir því sem þau eyða. Lögunum, sem sett voru 2011, er ætlað að tryggja fjárhagslegan stöðugleika evrópskra félaga, hvetja til aukinna sjálfbærra fjárfestinga og viðhalda eftirliti með ofneyslu. Michel Platini, þáverandi formaður UEFA, sagði lögin eiga að koma í veg fyrir „fjármálalega lyfjanotkun,“ og vísaði þar í að íþróttamenn hafa stundum notað ólögleg en frammistöðubætandi lyf til að ná forskoti á samkeppnina, rétt eins og ósjálfbær fjáraustur inn í félög er tilraun til að kaupa sér árangur án þess að vinna fyrir honum.

Þyngsta refsing sögunnar

Mál Manchester City, sem CAS tók ákvörðun um í júlí, á rætur sínar að rekja til umfjöllunar þýska blaðsins Der Spiegel í nóvember 2018. Þar birti blaðið mikið magn af gögnum sem hafði verið lekið af tölvuþrjótum, meðal annars ótal tölvupósta milli forráðamanna City. Þar kom fram að þeir höfðu ítrekað blekkt UEFA með því að gefa ekki upp að margir styrktarsamningar, auglýsingar framan á búningi liðsins og nafnarétturinn á leikvanginum, til að nefna dæmi, komu í raun frá eigandanum, Sheikh Mansour. Þar að auki voru samningarnir óhóflegir; það var verið að greiða félaginu mikið hærri fjármuni en viðskiptalegar forsendur voru fyrir. Málið snerist sérstaklega um meintar greiðslur fyrirtækis í eigu Mansour til félagsins sem City gaf upp sem auglýsingatekjur frá símafyrirtækinu Etisalat.

Umfjöllunina um mál Manchester City má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert