Hve glöð er vor æska

Leikmenn Chelsea fagna marki Masons Mounts gegn Úlfunum um liðna …
Leikmenn Chelsea fagna marki Masons Mounts gegn Úlfunum um liðna helgi. AFP

Arsenal og Chelsea leika til úrslita um enska bikarinn í dag, laugardag, á galtómum Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Stjórar beggja liða eru ungir að árum og stefna á sinn fyrsta titil. 

Óhætt er að fullyrða að slátturinn á Lundúnastórveldunum Chelsea og Arsenal hafi oft verið meiri en á leiktíðinni sem lýkur nú um helgina. Fyrrnefnda félagið getur þó mun betur við unað; tryggði sér fjórða sætið í úrvalsdeildinni og þar með rétt til þátttöku í Meistaradeild Evrópu næsta vetur. Í huga flestra fylgjenda þeirra bláklæddu er sá árangur viðunandi; félagið er að koma úr kaupbanni og tefldi fram ungum og reynslulitlum knattspyrnustjóra á tímabilinu, Frank Lampard, sem aftur lagði traust sitt á marga unga leikmenn, svo sem Mason Mount, Tammy Abraham, Christian Pulisic og Reece James, sem skilað hafa góðu verki og lofa ljómandi góðu til lengri tíma litið. 

Gleymum því heldur ekki að Chelsea er ennþá með í Meistaradeildinni í ár, að nafninu til.
Arsenal hafnaði á hinn bóginn á framandi slóðum í deildinni, áttunda sæti, sem er lakasti árangur liðsins í aldarfjórðung. Á ýmsu gekk á leiktíðinni en flestir eru þó sammála um að liðið sé heldur að braggast undir stjórn hins 38 ára gamla Spánverja Mikels Arteta sem leysti hinn áttavillta landa sinn Unai Emery af rétt fyrir jól. Arsenal varðist til dæmis af mikilli fimi í undanúrslitunum gegn Manchester City og fór vel með færin sín. Öðruvísi mér áður brá.

Chelsea var ekki síður sannfærandi í undanúrslitunum gegn Manchester United, sem verið hefur í vargaformi á þessari óvæntu sumarvertíð á Englandi. Bæði lið ættu fyrir vikið að ríða hnarreist inn á Wembley-leikvanginn í Lundúnum. Fyrir utan bikarinn sjálfan er þó meira í húfi fyrir Arsenal; tapi liðið leiknum verður það utan Evrópumóta í fyrsta sinn frá 1995-96.

Verður þetta seinasti leikur Pierre-Emerick Aubameyangs með Arsenal?
Verður þetta seinasti leikur Pierre-Emerick Aubameyangs með Arsenal? AFP


Funheit á öldinni

Arsenal hefur oftast allra félaga orðið enskur bikarmeistari í knattspyrnu, þrettán sinnum, þar af sex sinnum á þessari öld. Chelsea hefur líka átt góðu gengi að fagna á þessu elsta sparkmóti heims; unnið átta sinnum, þar af sex sinnum á þessari öld. Það má því með sönnu tala um tvö heitustu bikarlið samtímans.

Liðin hafa í tvígang áður leikið til úrslita og Arsenal vann í bæði skiptin. Vorið 2002 sigraði Arsenal Eið Smára Guðjohnsen og félaga 2:0, með mörkum frá Ray Parlour og Freddie Ljungberg, og vorið 2017 svo 2:1. Alexis Sánchez kom Arsenal yfir en Diego Costa jafnaði fyrir Chelsea. Það var svo Aaron Ramsey sem gerði sigurmark Arsenal.

Chelsea kom á hinn bóginn fram hefndum í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í fyrra; gjörsigraði þá Arsenal, 4:1. Eden Hazard skoraði tvö mörk og þeir Olivier Giroud og Pedro sitt markið hvor. Alex Iwobi svaraði fyrir Arsenal.

Arsenal hefur unnið sex síðustu bikarúrslitaleiki sem félagið hefur tekið þátt í; tapaði síðast fyrir Liverpool 2001. Töpin tvö gegn Arsenal eru þau einu hjá Chelsea í bikarúrslitaleikjum á öldinni en liðið vann bikarinn seinast 2018.

Í ljósi velgengni félaganna tveggja kemur ekki á óvart að sigursælasti leikmaðurinn í sögu mótsins sé Ashley Cole, sem varð þrisvar bikarmeistari með Arsenal og fjórum sinnum með Chelsea. Sigursælasti stjórinn er Arsène Wenger sem vann mótið sjö sinnum með Arsenal.

Nánar er hitað upp fyrir bikarúrslitaleikinn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »