Ungir stjórar berjast um fyrsta bikarinn

Frank Lampard
Frank Lampard AFP

Flautað verður til leiks í úrslitaleik enska bikarsins í knattspyrnu klukkan 16:30 á Wembley í dag en þar mætast Lundúnaliðin Arsenal og Chelsea.

Liðin mættust í úrslitum fyrir þremur árum og hafði Arsenal þá betur, 2:1, en skytturnar eru sigursælasta lið keppninnar frá upphafi, hafa unnið bikarinn þrettán sinnum. Chelsea er í þriðja sæti, á eftir Manchester United, með átta bikarsigra.

Eitthvað er um meiðsli hjá báðum liðum. Hector Bellerín, bakvörður Arsenal, hefur verið meiddur en byrjaði samt nýlega að æfa aftur. Cedric Soares spilaði með Southampton í bikarnum fyrr á tímabilinu og getur því ekki verið með og þeir Calum Chambers, Shkodran Mustafi og Gabriel Martinelli eru allir frá hjá Arsenal.

Ruben Loftus-Cheek verður ekki með Chelsea en þeir N'Golo Kanté og Willian, tveir lykilmenn, gætu verið klárir. Báðir hafa verið meiddir undanfarið en eru byrjaðir að æfa aftur.

Ungir stjórar berjast um að vinna fyrsta bikarinn

Knattspyrnustjórarnir tveir eltast við sína fyrstu verðlaunapeninga í sæti þjálfara en báðir áttu þeir glæstan og sigursælan feril sem leikmenn. Mikel Arteta spilaði fyrir Arsenal frá 2011 til 2016 og varð einmitt bikarmeistari með liðinu tvisvar. Í dag gæti hann unnið sinn fyrsta titil sem stjóri en hann tók við Lundúnaliðinu í desember á síðasta ári. Þá er þetta eini séns Arsenal á þátttöku í Evrópudeildinni á næstu leiktíð en liðið endaði í 8. sæti úrvalsdeildarinnar. Chelsea er nú þegar búið að vinna sér sæti í Meistaradeildinni.

Frank Lampard þarf svo vart að kynna. Hann er einn sigursælasti leikmaður í sögu Chelsea, spilaði yfir 600 leiki fyrir liðið á árunum 2001 til 2014. Varð enskur meistari þrisvar, bikarmeistari fjórum sinnum og Evrópumeistari einu sinni. Frumraun hans í sæti þjálfara var með Derby County í B-deildinni á þarsíðustu leiktíð en hann tók við Chelsea síðasta sumar og reynir, rétt eins og Arteta, að vinna sinn fyrsta titil sem stjóri í dag.

Mikel Arteta með Pierre-Emerick Aubameyang.
Mikel Arteta með Pierre-Emerick Aubameyang. AFP
mbl.is