Goðsögnin segir United að kaupa báða

Jadon Sancho.
Jadon Sancho. AFP

Ryan Giggs, leikjahæsti og sigursælasti leikmaður í sögu Manchester United, vill sjá sitt gamla félag kaupa tvo leikmenn í félagaskiptaglugganum sem nú er opinn.

Giggs, sem nú stýrir velska landsliðinu í knattspyrnu, var í viðtali í þættinum Webby og O'Neill og var spurður út í þá Jack Grealish, fyrirliða Aston Villa, og Jadon Sancho, leikmann Dortmund, en báðir hafa verið sterklega orðaðir við United.

„Tveir góðir leikmenn. Grealish er vanur úrvalsdeildinni og virðist hafa nógu sterkt hugarfar til að spila fyrir United. Sancho er eldsnöggur og snjall leikmaður. Þessir tveir, ef þeir eru fáanlegir, þá myndi ég vilja kaupa báða.“

Sancho skoraði 17 mörk og gaf 17 stoðsendingar í þýsku deildinni í vetur og er Dortmund sagt vilja 100 milljónir punda fyrir hann. Grealish hjálpaði Villa að bjarga sæti sínu í úrvalsdeildinni ensku er hann skoraði sex mörk og gaf átta stoðsendingar.

Jack Grealish.
Jack Grealish. AFP
mbl.is