Möguleikar City aldrei eins miklir

Wayne Rooney er spilandi þjálfari hjá Derby County um þessar …
Wayne Rooney er spilandi þjálfari hjá Derby County um þessar mundir. AFP

Wayne Rooney, markahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester United og enska landsliðsins og núverandi leikmaður og aðstoðarþjálfari Derby County, segir að möguleikar Manchester City á að vinna Meistaradeild Evrópu hafi aldrei verið eins miklir. 

City fær Real Madríd í heimsókn í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum næstkomandi föstudag, en City vann fyrri leikinn í Madríd í febrúar. Isco kom Real madríd yfir en Gabriel Jesus og Kevin De Bruyne svöruðu fyrir City. 

Real Madrid vann tíu leiki í röð í lok tímabilsins á Spáni og varð Spánarmeistari. Verkefni City er því verðugt, þrátt fyrir að fara með eins marks forskot inn í  heimaleikinn. 

„Möguleikar City í Meistaradeildinni hafa aldrei verið eins miklir. Ég sé City vinna Real Madrid, Sergio Ramos verður í banni og því held ég að City myndi skora. Eina spurningin er hvort varnarleikur City sé nægilega góður,“ skrifaði Rooney í The Times. 

„City þarf ekki að skora og má tapa 1:0. Ég held þeir hafi gert nægilega mikið í fyrri leiknum til að komast í næstu umferð. Þá er City komið í mjög álitlega stöðu,“ skrifaði Rooney enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert