Chelsea reiðubúið að selja tíu leikmenn

Kepa Arrizabalaga hefur ekki náð sér á strik hjá Chelsea.
Kepa Arrizabalaga hefur ekki náð sér á strik hjá Chelsea. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea er reiðubúið að selja tíu leikmenn og þar á meðal markvörðinn Kepa Arrizabalaga, miðjumanninn Jorginho og varnarmennina Antonio Rüdiger, Kurt Zouma og Andreas Christiansen. Sky Sports greinir frá. 

Frank Lampard, knattspyrnustjóri liðsins, viðurkenndi í viðtali á dögunum að félagið þyrfti að selja leikmenn til að búa til fjármagn til að kaupa nýja leikmenn. Hefur Chelsea þegar keypt Timo Werner og Hakim Ziyech í sumar. 

Chelsea hefur skoðað varnarmenn á borð við Sergio Reguilon hjá Real Madrid og þá hefur Ben Chilwell hjá Leicester sömuleiðis verið orðaður við félagið.

Þá vill Chelsea losna við Kepa Arrizabalaga, sem hefur ekki náð sér á strik í markinu eftir að Chelsea keypti hann á yfir 70 milljónir punda. Hefur Jan Oblak verið orðaður við félagið. 

Emerson, Victor Moses, Tiemoue Bakayoko, Danny Drinkwater og Michy Batshuayi eru einnig á sölulistanum. 

mbl.is