Sóknarmaður West Ham bestur í júlí

Michael Antonio í leik með West Ham gegn Newcastle.
Michael Antonio í leik með West Ham gegn Newcastle. AFP

Michael Antonio, sóknarmaður West Ham, var í dag valinn besti leikmaður júlímánaðar af ensku úrvalsdeildinni. Antonio skoraði átta mörk og gaf eina stoðsendingu er West Ham lék fjóra leiki án þess að tapa í júlí. 

Antonio skoraði m.a. fjögur mörk í 4:0-sigri West Ham á Norwich. Er hann fyrsti leikmaður West Ham til að fá viðurkenninguna síðan Diafra Sakho var valinn leikmaður októbermánaðar 2014. 

„Ég er hæstánægður. Sem atvinnumaður viltu alltaf gera þitt besta og að fá svona viðurkenningu er æðislegt. Ég hef aldrei spilað betur,“ sagði Antonio í viðtali sem birtist á heimasíðu deildarinnar. 

West Ham var í mikilli fallbaráttu stóran hluta síðasta tímabils en endaði að lokum í 16. sæti með 39 stig, fimm stigum frá falli. 

mbl.is