Leikmenn Arsenal ósáttir við uppsagnir

Arsenal varð bikarmeistari um síðustu helgi.
Arsenal varð bikarmeistari um síðustu helgi. AFP

Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Arsenal eru ósáttir eftir uppsagnir 55 starfsmanna í gær. Leikmennirnir tóku á sig 12,5 prósenta launalækkun í apríl og fengu í leiðinni loforð um að enginn starfsmaður myndi missa vinnuna, loforð sem forráðamenn félagsins hafa nú svikið. The Athletic greinir frá. 

Hefur ákvörðun félagsins vakið hörð viðbrögð þar sem starfsfólkið þénaði langflest aðeins brotabrot af launum leikmanna. Þá vinnur félagið hörðum höndum að því að styrkja sig með dýrum og launaháum leikmönnum. 

Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan, sem er mikill stuðningsmaður félagsins, var allt annað en sáttur. 

„Arsenal rekur 55 starfsmenn þrátt fyrir að eigandinn sé milljarðamæringur sem var að eignast fullt af peningum með því að vinna enska bikarinn og tryggja sér Evrópusæti. Þá borgar hann Mesut Özil 350.000 pund (rúmar 62 milljónir króna) í vikulaun til að sitja á rassinum. Það er ekki hægt að verja þessa ákvörðun,“ skrifaði hann á Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert