Það besta í stöðunni er að selja Gylfa

Verður Gylfi Þór áfram hjá Everton næsta vetur?
Verður Gylfi Þór áfram hjá Everton næsta vetur? AFP

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton áttu erfitt uppdráttar í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Liðið endaði í 12. sæti og Gylfi skoraði aðeins tvö mörk í 35 leikjum eftir að hafa skorað 13 árið á undan.

Staðarblaðið Liverpool Echo gerði upp tímabilið og fór yfir hvaða leikmenn Everton ætti bæði að kaupa og selja í félagsskiptaglugganum sem nú er opinn. Segir þar meðal annars að það besta í stöðunni væri að selja Gylfa „eftir ömurlegt tímabil á Goodison“.

Þá segir að illa hafi gengið að finna stöðu fyrir hann í liðinu undir Carlo Ancelotti, sem tók við sem knattspyrnustjóri fyrir áramót. Gylfi þénar vel og ef félagið fær gott tilboð ætti það að selja íslenska landsliðsmanninn og jafnvel reyna fá aðra af tveimur stórstjörnum Real Madríd sem ekki lengur eru í náðinni á Spáni, James Rodríguez eða Gareth Bale.

mbl.is