Fyrirliðinn sendi vandræðagemsunum skilaboð

Harry Kane í baráttunni á Laugardalsvelli á laugardaginn síðasta.
Harry Kane í baráttunni á Laugardalsvelli á laugardaginn síðasta. AFP

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, sendi þeim Mason Greenwood og Phil Foden skilaboð eftir að þeir voru reknir úr landsliðinu á dögunum.

Greenwood, 18 ára, og Foden, 20 ára, gerðust sekir um brot á íslenskum sóttvarnareglum á dögunum þegar þeir dvöldu hér á landi eftir leik Íslands og Englands í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli á laugardaginn síðasta.

Greenwood og Foden fengu tvær íslenskar stúlkur upp á herbergi til sín á sunnudeginum en málið hefur vakið mikla athygli á Englandi.

„Ég sendi þeim skilaboð og reyndi að hughreysta þá,“ sagði Kane í samtali við fjölmiðla eftir leik Englands og Danmerkur í Þjóðadeild UEFA í gær í Kaupmannahöfn.

„Þeir eru að ganga í gegnum ákveðna erfiðleika og það er ekki auðvelt þegar enska pressan tekur þig fyrir eins og var gert í þeirra tilfell.

Ég vildi láta þá vita að þeir væru ekki einir í þessu og ég veit að fleiri leikmenn liðsins hafa gert slíkt hið sama og reynt að vera til taks fyrir þá.

Þeir eru báðir meðvitaðir um að þeir gerðu stór mistök og þeir munu læra af þeim. Þetta eru ungir strákar að stíga sín fyrstu skref á stóru sviði. Þetta mun ekki koma fyrir aftur,“ bætti Kane við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert