Fowler við Tómas: Báðir stjórar ósáttir

Liverpool tók á móti Leeds í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í Liverpool í dag í miklum markaleik.

Leiknum lauk með 4:3-sigri Liverpool en Leeds tókst að jafna metin í þrígang á Anfield, áður en Mohamed Salah skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu á lokamínútunum.

Tómas Þór Þórðason, ritstóri Enska boltans, ræddi við Robbie Fowler, fyrrverandi leikmann Liverpool og Leeds, um leikinn á Anfield.

„Þetta var frábær leikur fyrir hinn almenna stuðningsmann,“ sagði Fowler í samtali við Tómas Þór.

„Ég get rétt ímyndað mér að hvorugur stjórinn hafi verið sérstaklega ánægður með varnarleikinn en þessi leikur var frábær skemmtun og gefur svo sannarlega góð fyrirheit upp á framhaldið að gera.“

Þá hrósaði framherjinn fyrrverandi liði Leeds fyrir frammistöðuna á Anfield.

„Við höfum séð mörg lið mæta á Anfield, sitja til baka og leyfa Liverpool að sækja á sig trekk í trekk. Það sem mér fannst aðdáunarvert var að Leeds mætti á Anfield, spilaði sinn leik, og hélt sig við sinn leikstíl, þrátt fyrir að þeir væru að mæta Englandsmeisturunum,“ bætti Fowler við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert