Fowler við Tómas: Leeds er félag sem á heima í úrvalsdeildinni

Liverpool og Leeds eigast nú við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í Liverpool og er staðan 3:2, Liverpool í vil, þegar fyrri hálfleik var að ljúka.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans á Símanum Sport, ræddi við Robbie Rowler, fyrrverandi leikmann Liverpool og Leeds, í aðdraganda leiksins í dag.

„Ég er ekki viss um að fólk úti í heimi geri sér grein fyrir því hversu stór klúbbur Leeds er,“ sagði Fowler í samtali við Tómas Þór Þórðarson.

„Fólk í Bretlandi gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir því þótt það séu sextán ár síðan þeir voru í efstu deild síðast.

Það skiptir ekki máli í hvaða deild þeir spila, stuðningsmenn mæta alltaf á leikina þeirra, og þetta er félag sem á heima í efstu deild.

Markmiðið fyrir tímabilið hjá þeim er að sjálfsögðu að halda sæti sínu í deildinni og ég hef fulla trú á því að það takist,“ bætti Fowler við.

mbl.is