Sannfærandi byrjun hjá Leicester

Timothy Castagne fagnar eftir að hafa komið Leicester yfir gegn …
Timothy Castagne fagnar eftir að hafa komið Leicester yfir gegn WBA í dag. AFP

Leicester City hóf nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni af krafti í dag og vann góðan útisigur á nýliðum West Bromwich Albion, 3:0, á The Hawthorns.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði belgíski bakvörðurinn Timothy Castagne fyrir Leicester, í sínum fyrsta leik í deildinni en félagið keypti hann frá Atalanta á Ítalíu í byrjun þessa mánaðar fyrir 21,5 milljón punda. Hann var ónotaður varamaður hjá belgíska landsliðinu sem vann það íslenska 5:1 í Brussel síðasta þriðjudag.

Jamie Vardy bætti við marki fyrir Leicester úr vítaspyrnu á 74. mínútu og hann hefur þar með skorað í fimm heimsóknum liðsins í röð á The Hawthorns. Vardy varð markakóngur deildarinnar á síðasta tímabili með 23 mörk fyrir Leicester.

Vardy var aftur á  ferðinni tíu mínútum síðar, fór þá aftur á vítapunktinn og skoraði  sitt annað mark og lokatölur 3:0.

mbl.is