„Hann er okkar „einstaki“

Nuno Espirito Santo segir sínum mönnum til á hliðarlínunni.
Nuno Espirito Santo segir sínum mönnum til á hliðarlínunni. AFP

Portúgalinn Nuno Espiríto Santo hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning sem knattspyrnustjóri enska félagsins Wolverhampton Wanderers en hann hefur náð frábærum árangri með liðið.

Nuno, eins og hann er jafnan kallaður, tók við Úlfunum í miðri B-deildinni sumarið 2017 en undir hans stjórn vann liðið sér sæti í úrvalsdeildinni og hefur náð í kjölfarið sínum besta árangri í fjörutíu ár með því að enda í sjöunda sæti tvö tímabil í röð.

Auk þess náði Wolves að komast í átta liða úrslit Evrópudeildar UEFA í sumar sem er besti árangur félagsins í Evrópukeppni frá árinu 1972.

Nuno þjálfaði lið Porto og Valencia áður en hann tók við Úlfunum en hann er 46 ára gamall og var síðast í röðum Porto sem leikmaður árið 2010.

„Hann er okkar „einstaki“ og hefur sett mjög ákveðinn svip á okkar lið,“ sagði Jeff Shi stjórnarformaður Wolverhampton Wanderers í dag, og vitnaði þar til landa Nunos, Josés Mourinhos, sem kallaði sjálfan sig „hinn einstaka“, The Special One, á sínum tíma.

Wolves sækir Sheffield United heim í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert