Hló að ummælum Klopps

Frank Lampard og Jürgen Klopp á góðri stundu.
Frank Lampard og Jürgen Klopp á góðri stundu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur eytt háum fjárhæðum í nýja leikmenn í sumar og er eyðslan komin yfir 200 milljónir punda.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var spurður út í hugsanleg leikmannakaup Liverpool á dögunum og hann notaði tækifærið og skaut á Chelsea í leiðinni þegar hann talaði um að Liverpool væri ekki í eigu þjóða eða olíufursta.

Lampard var spurður út í ummæli Klopps á blaðamannafundi á dögunum og stóð ekki á svörum hjá enska stjóranum.

„Þessi ummæli trufluðu mig ekki og ég hló að þeim frekar en að pirra mig á þeim,“ sagði Lampard.

„Liverpool hefur gert virkilega vel á leikmannamarkaðnum frá því Klopp tók við og leikmannastefnan er nánast fullkomin.

Þeir hafa hins vegar borgað mikið fyrir leikmenn eins og Van Dijk, Alisson, Fabinho, Keita, Mané, Salah. Allt frábærir leikmenn en hafa kostað sitt.

Liverpool hefur gefið Klopp tíma til þess að byggja upp sitt lið og þetta er falleg saga en það hefur kostað félagið mikla peninga að gera þetta svona.

Það sem við höfum gert er einfaldlega að styrkja hópinn okkar eftir að hafa verið í félagaskiptabanni undanfarin tvö tímabil,“ bætti Lampard við.

mbl.is