Lampard: Margir leikmenn í sóttkví

Frank Lampard á hliðarlínunni í kvöld.
Frank Lampard á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, var sáttur eftir 3:1-sigur sinna manna gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni á Falmer-vellinum í Brighton í kvöld.

Það voru þeir Jorginho, Reece James og Kurt Zouma sem skoruðu mörk Chelsea í leiknum en Leandro Trossard skoraði mark Brighton á 54. mínútu í stöðunni 1:0.

„Það er ekki auðvelt að koma til Brighton og sækja þrjú stig,“ sagði Lampard í samtali við BBC eftir leik.

„Við fengum nokkra daga í undirbúning fyrir leikinn og ég átti því ekki von á því að liðið myndi spila fótboltann sem ég vil að liðið spili.

Við þurfum þess vegna að hafa virkilega fyrir hlutunum og þetta var fyrst og fremst baráttusigur.

Það eru margir leikmenn í sóttkví hjá okkur og margir sem eru ekki í leikformi. Það er bara þannig og það þýðir lítið að velta sér upp úr því.

Við eigum langt í land en vonandi getum við haldið áfram að bæta okkur, leik fyrir leik,“ bætti Lampard við.

mbl.is