Liverpool sagt leiða kapphlaupið

Kylian Mbappé er á meðal bestu knattspyrnumanna heims þrátt fyrir …
Kylian Mbappé er á meðal bestu knattspyrnumanna heims þrátt fyrir ungan aldur. AFP

Englandsmeistarar Liverpool í knattspyrnu leiða kapphlaupið um franska sóknarmanninn Kylian Mbappé, leikmann PSG í Frakklandi, en það er talkSport sem greinir frá þessu.

The Times greindi frá því á dögunum að leikmaðurinn hefði tjáð forráðamönnum PSG að hann ætlaði sér að yfirgefa félagið eftir tímabilið en hann vill reyna fyrir sér á annaðhvort Spáni eða á Englandi.

Mbappé, sem er 21 árs gamall, er uppalinn hjá Monaco en gekk til liðs við PSG sumarið 2018 fyrir 165 milljónir punda. Sóknarmaðurinn hefur margoft lýst yfir aðdáun sinni á Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, en Klopp er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2024.

TalkSport segir að Klopp og Mbappé hafi verið í reglulegu sambandi að undanförnu en vegna kórónuveirunnar ákvað leikmaðurinn að halda kyrru fyrir í Frakklandi og taka eitt tímabil í viðbót með Frakklandsmeisturunum.

Þrátt fyrir ungan aldur er leikmaðurinn á meðal bestu knattspyrnumanna heims en hann hefur skorað 90 mörk og lagt upp önnur 51 í 124 leikjum fyrir PSG á ferli sínum í frönsku höfuðborginni.

Þá á hann að baki 35 A-landsleiki fyrir franska landsliðið þar sem hann hefur skorað 14 mörk.

mbl.is