Möguleikar Manchester United orðnir litlir

Jadon Sancho í baráttu við Hörð Björgvin Magnússon á Laugardalsvellinum.
Jadon Sancho í baráttu við Hörð Björgvin Magnússon á Laugardalsvellinum. AFP

Líkurnar á að Manchester United nái að kaupa knattspyrnumanninn efnilega Jadon Sancho frá Borussia Dortmund virðast orðnar frekar litlar. Í það minnsta eru forráðamenn Dortmund orðnir afar bjartsýnir um að þeir missi hann ekki frá sér.

Sancho er aðeins tvítugur en hefur slegið í gegn hjá Dortmund og unnið sér sæti í enska landsliðinu þar sem hann var m.a. í byrjunarliðinu gegn Íslandi á Laugardalsvellinum á dögunum.

BBC segir að forráðamenn Dortmund bendi stöðugt á að þeir hafi ákveðið að frestur annarra liða til að kaupa Sancho hafi runnið út 10. ágúst á meðan forráðamenn Manchested United horfi eingöngu til þess að félagaskiptaglugganum verði ekki lokað fyrr en 5. október.

Dortmund vill fá 110 milljónir punda fyrir Sancho og það er meira en Manchester United er tilbúið til að greiða en BBC segir að félagið hafi hinsvegar staðfest að launakröfur leikmannsins séu innan eðlilegra marka.

mbl.is