Þeir urðu að gera eitthvað (myndskeið)

Bjarni Þór Viðarsson, Gylfi Einarsson og Tómas Þór Þórðarson ræddu um lið Chelsea og afgerandi leikmannakaup félagsins fyrir nýhafið tímabil í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í þættinum Vellinum á Símanum Sport í gærkvöld.

Chelsea keypti leikmenn fyrir rúmar 200 milljónir punda í sumar og Bjarni sagði að þeir hefðu þurft að gera eitthvað til að taka næsta skref, þá langi í árangur, og nú sé lykilatriði að finna rétta miðvarðaparið. „Ég myndi velja  Thiago Silva og Andreas Christensen en veit að það eru ekki allir sammála mér í því,“ sagði Bjarni.

Þeir fóru líka yfir ungu leikmennina sem fengu mörg tækifæri með Chelsea síðasta vetur, á meðan félagið mátti ekki kaupa leikmenn, og Gylfi Einarsson sagðist sjá fyrir sér að þrír af þeim myndu festa sig í sessi í liðinu.

Chelsea sækir Brighton heim í kvöld í fyrstu umferð deildarinnar. Umræðurnar má sjá og heyra í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is