Skotmark United gerði fimm ára samning

Jack Grealish verður hjá Aston Villa næstu árin.
Jack Grealish verður hjá Aston Villa næstu árin. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Jack Grealish gerði í dag nýjan fimm ára samning við uppeldisfélag sitt Aston Villa en hann er fyrirliði liðsins. 

Grealish hefur lengi verið orðaður við Manchester United, en hann átti afar gott tímabil með Aston Villa á síðustu leiktíð og átti stóran þátt í að liðið hélt sér naumlega í deild þeirra bestu. 

Miðjumaðurinn hélt tryggð við Villa, þrátt fyrir að liðið hafi fallið úr ensku úrvalsdeildinni árið 2016, og átti hann stóran þátt í að liðið fór upp um deild fyrir síðustu leiktíð. 

Aston Villa leikur fyrsta leik sinn á nýju tímabili næstkomandi laugardag er Sheffield United kemur í heimsókn en liðin fóru saman upp úr B-deildinni á sínum tíma. 

mbl.is