Aldrei mætt svona miðvörðum áður

Timo Werner í baráttunni við Ben White í leik Brighton …
Timo Werner í baráttunni við Ben White í leik Brighton og Chelsea á mánudaginn. AFP

Timo Werner lék sinn fyrsta leik fyrir sitt nýja félag Chelsea þegar liðið heimsótti Brighton í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Falmer-völlinn í Brighton á mánudaginn síðasta.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Chelsea en Werner var í byrjunarliði Chelsea, lék allan leikinn, og fiskaði vítaspyrnuna sem kom liðinu 1:0 yfir.

Werner gekk til liðs við Chelsea frá RB Leipzig í Þýskalandi í sumar en enska félagið borgaði tæplega 48 milljónir punda fyrir Þjóðverjann sem er uppalinn hjá Stuttgart.

„Enska úrvalsdeildin er klárlega öðruvísi en sú þýska,“ sagði Werner í samtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Ég hef sem dæmi aldrei spilað á móti svona stórum og stæðilegum miðvörðum áður. Þeir voru massívir!

Annars er ég sáttur með minn leik og mér fannst ég skila mínu. Það var mikið pláss fyrir mig að hlaupa í, sérstaklega í fyrri hálfleik, og þetta gekk nokkuð vel,“ bætti Werner við.

mbl.is