Bale að ganga til liðs við Tottenham

Gareth Bale í leik með Tottenham árið 2013.
Gareth Bale í leik með Tottenham árið 2013. AFP

Knattspyrnumaðurinn Gareth Bale er að snúa aftur til Tottenham en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

Bale gekk til liðs við Real Madrid frá Tottenham árið 2013 en spænska félagið borgaði 80 milljónir punda fyrir leikmanninn sem var metfé á sínum tíma.

Bale hefur ekki átt fast sæti í liði Real Madrid undanfarin ár og Zinedine Zidane, stjóri Real Madrid, hefur viljað losna við leikmanninn frá því hann tók aftur við stjórnartaumunum hjá félaginu á síðasta ári.

Sky Sports greinir frá því að félögin séu búin að ná samkomulagu um skipti leikmannsins sem mun ganga til liðs við Tottenham á láni og enska félagið hefur svo forskaupsrétt á sóknarmanninum.

Leikmaðurinn bíður nú eftir grænu ljósi til þess að geta flogið til London og skrifað undir samning en samvkæmt Sky Sports eru lögfræðingar félaganna nú þegar byrjaðir að teikna upp lánssamninginn.

Bale, sem er 31 árs gamall, þekkir vel til hjá Tottenham eftir að hafa leikið með liðinu frá 2007 til ársins 2013 en hann gekk til liðs við Tottenham frá Southampton.

Hjá Tottenham lék hann 203 leiki í öllum keppnum og skoraði í þeim 56 mörk og lagði upp önnur 58. Tímabilið 2012-13 var hans besta fyrir félagið en þá skoraði hann 21 mark í 33 deildarleikjum.

Þrátt fyrir að hafa verið í ónáð hjá bæði Zidane og stuðningsmönnum félagsins undanfarin ár hefur Bale tvívegis orðið Spánarmeistari með liðinu, einu sinni bikarmeistari og fjórum sinnum Evrópumeistari.

mbl.is