Frá Atlético Madrid til City?

José Giménez er á óskalista Manchester City.
José Giménez er á óskalista Manchester City. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City íhugar nú að leggja fram tilboð í úrúgvæska miðvörðinn José Giménez en það er The Guardian sem greinir frá þessu.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, vill styrkja varnarleikinn hjá sér fyrir komandi tímabil en félagið hefur nú þegar fest kaup á Nathan Aké frá Bournemouth fyrir 41 milljón punda.

Giménez er 25 ára gamall miðvörður en hann er samningsbundinn Atlético Madrid á Spáni og hefur leikið með liðinu frá 2013.

Þá hefur hann verið fastamaður í úrúgvæska landsliðinu undanfarin ár en hann á að baki 58 landsleiki fyrir Úrúgvæ þar sem hann hefur skorað 8 mörk.

Giménez er metinn á 50 milljónir punda en hann er samningsbundinn spænska félaginu til sumarsins 2023.

mbl.is