Hafa áhyggjur af liði Manchester United

Bruno Fernandes og Fred eru nýbyrjaðir að æfa á ný …
Bruno Fernandes og Fred eru nýbyrjaðir að æfa á ný eftir sumarfríið. AFP

Manchester United leikur sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um næstu helgi, gegn Crystal Palace en áhyggjur eru í gangi um að liðið verði í raun alls ekki tilbúið í þann slag.

Viðureign United í fyrstu umferð var frestað vegna þess hve lengi liðið lék í Evrópudeildinni í ágústmánuði en þar komst það í undanúrslitin. Fyrir vikið hefur sumarfríið verið stutt og skammur tími síðan leikmenn hófu æfingar á ný.

Manchester Evening News segir að staðan á liðinu sé ekki góð. Sex leikmenn hafi mætt á sína fyrstu æfingu á mánudaginn, Eric Bailly, Aaron Wan-Bissaka, Juan Mata, Paul Pogba, Fred og Nemanja Matic. Bruno Fernandes hafi komið um helgina og þó Mason Greenwood hafi verið á æfingum með enska landsliðinu hafi vesenið á Íslandi á dögunum truflað hans undirbúning fyrir tímabilið.

Þá eru Axel Tuanzebe og Phil Jones úr leik í bili vegna meiðsla. Blaðið segir að einungis þrír leikmenn, Harry Maguire, Marcus Rashford og Luke Shaw, séu næsta öruggir um að vera í byrjunarliðinu gegn Palace en leikur liðanna fer fram síðdegis á laugardaginn.

mbl.is