Liverpool í sérflokki

Jürgen Klopp og Frank Lampard hafa skotið fast hvorn á …
Jürgen Klopp og Frank Lampard hafa skotið fast hvorn á annan undanfarna daga. AFP

Englandsmeistarar Liverpool í knattspyrnu eru í sérflokki þegar kemur að því að eyða peningum í nýja leikmenn en það var Sky Sports sem tók saman upplýsingar um þetta á dögunum.

Ef horft er til síðustu fjögurra félagaskiptaglugga hefur Liverpool einungis eytt 23 milljónum punda í nýja leikmenn en Arsenal, Tottenham Manchester City, Manchester United og Chelsea hafa öll eytt háum fjárhæðum.

Ef horft er til janúargluggans 2019 hefur Chelsea eytt mest allra af topp-sex-liðunum á Englandi eða 302 milljónum punda.

United kemur þar á eftir með 255 milljónir punda og City hefur eytt 226 milljónum punda. Tottenham hefur eytt 186 milljónum punda og Arsenal 173 milljónum.

Liverpool vann ensku úrvalsdeildina með miklum yfirburðum á síðustu leiktíð en liðið hafði afar hægt um sig á leikmannamarkaðnum síðasta sumar.

Jürgen Klopp skaut á Chelsea og City í viðtali á dögunum þar sem hann sagði að Liverpool gæti ekki keypt leikmenn að vild þar sem félagið væri ekki í eigu þjóða eða olíufursta.

Frank Lampard, stjóri Chelsea, hafði gaman af ummælum Klopps og skaut á hann til baka að Liverpool hefði eytt háum fjárhæðum í dýra leikmenn frá því Klopp tók við í október 2015.

Ljósmynd/Sky Sports
mbl.is