Snýr Bale aftur til Tottenham?

Gareth Bale á æfingu með velska landsliðinu fyrr í þessum …
Gareth Bale á æfingu með velska landsliðinu fyrr í þessum mánuði. AFP

Talsverðar líkur virðast orðnar á því að velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale snúi aftur til Tottenham Hotspur eftir sjö ára fjarveru en samkvæmt Sky Sports hafa ráðgjafar leikmannsins hafið viðræður við Tottenham um möguleikann á að Bale verði lánaður þangað frá Real Madrid.

Sagt er að Bale hafi mikinn áhuga á því að leika á ný með Tottenham en hann spilaði með liðinu frá 2007 til 2013 áður en hann var seldur til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda sem gerði hann að dýrasta knattspyrnumanni heims á þeim tíma.

Þá segir Daily Mail í dag að möguleiki sé á því að Tottenham láti Dele Alli fara til spænsku meistaranna í staðinn og það hafi komið Lundúnafélaginu í betri stöðu en Manchester United, hvað varðar líkurnar á að krækja í Bale.

Bale, sem er 31 árs, hefur verið mikið orðaður við Manchester United síðustu sólarhringana. Hann hefur um langt skeið verið sagður á förum frá Real Madrid og spilaði aðeins 20 leiki samanlagt með liðinu í öllum mótum á síðasta keppnistímabili og skoraði 3 mörk. Áður skoraði hann mest 21 mark fyrir liðið tímabilið 2017-18 og gerði 19 mörk í spænsku 1. deildinni tímabilið 2015-19. Bale var valinn maður leiksins í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2018 þegar hann skoraði með magnaðri hjólhestaspyrnu í sigri Real Madrid á Liverpool.

mbl.is