Solskjær vill tvo nýja leikmenn

Jadon Sancho er efstur á óskalista Ole Gunnar Solskjær.
Jadon Sancho er efstur á óskalista Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, vill fá tvo nýja leikmenn til félagsins áður en félagaskiptaglugganum verður lokað en það er norski blaðamaðurinn Fredrik Filtvedt sem greinir frá þessu í grein sinni á dagbladet.no.

Jadon Sancho, sóknarmaður Borussia Dortmund í Þýskalandi, er annar þessara leikmanna en Sancho hefur verið sterklega orðaður við United í allan vetur.

Filtvedt greinir frá því að Sancho sé búin að semja við United um kaup og kjör en enska félaginu gengur hins vegar illa að semja um kaupverðið við Dortmund sem vill fá í kringum 100 milljónir punda fyrir sóknarmanninn.

Norski blaðamaðurinn segir að forráðamenn United séu nokkuð bjartsýnir á að ná samkomulagi við þýska félagið og þá vill United einnig fá nýjan varnarmann á Old Trafford.

Nokkrir varnarmenn hafa verið orðaðir við félagið í sumar en Kalidou Koulibaly, miðvörður Napoli, er einn þeirra sem gæti gengið til liðs við United áður en félagaskiptaglugganum verður lokað hinn 4. október næstkomandi.

mbl.is