Stórmerkilegur áfangi hjá Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði og lagði upp mark fyrir Everton þegar liðið tók á móti D-deildarliðinu Salford City í enska deildabikarnum í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í kvöld.

Leiknum lauk með 3:0-sigri Everton en Gylfi, sem var fyrirliði Everton í leiknum, lék allan leikinn á miðsvæðinu og skoraði annað mark leiksins á 74. mínútu.

Michael Keane kom Everton strax á 8. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Gylfa. Gylfi bætti við öðru marki á 74. mínútu af stuttu færi í teignum áður en Moise Kean skoraði þriðja mark Everton á 87. mínútu og þar við sat.

Gylfi Þór var í byrjunarliði Everton í 100. skipti í kvöld en hann gekk til liðs við félagið frá Swansea árið 2017.

Þá skoraði hann sitt hundraðasta mark á Englandi í kvöld en hann hefur leikið með Reading, Shrewsbury, Crewe Alexandra, Swansea, Tottenham og Everton þar í landi.

mbl.is