Bale til London á morgun og annar leikmaður með

Gareth Bale er á leið til síns gamla félags, Tottenham.
Gareth Bale er á leið til síns gamla félags, Tottenham. AFP

Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale flýgur frá Madrid til London á morgun til að ganga frá samningum við sitt gamla félag Tottenham Hotspur, og væntanlega verður annar leikmaður Real Madrid með í för.

Sky Sports segir að viðræður Tottenham og Real Madrid um að enska félagið fái Bale að láni út komandi tímabil séu langt komnar þótt enn sé ekki komin endanleg niðurstaða.

Um leið sé útlit fyrir að Tottenham kaupi samherja hans, bakvörðinn Sergio Regulión, af spænsku meisturunum og verið sé að ganga frá því af hálfu Tottenham að fara með þá í einkaflugvél til London á morgun til að ganga frá málum.

Regulión er 23 ára gamall vinstri bakvörður sem lék sinn fyrsta landsleik fyrir Spán í þessum mánuði en hann hefur verið í röðum Real Madrid frá átta ára aldri. Hann var í láni hjá Sevilla allt síðasta tímabil.

mbl.is