Klopp: Hef aldrei tjáð mig um sögusagnir

Jürgen Klopp vildi ekki tjá sig um komu Thiago Alcantara …
Jürgen Klopp vildi ekki tjá sig um komu Thiago Alcantara til félagsins. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Liverpool, vildi ekki tjá sig um kaup félagsins á Thiago Alcantara, miðjumanni Bayern München í samtali við Sky Sports í dag.

Thiago er að ganga til liðs við Liverpool fyrir 20 milljónir punda en fimm milljónir gætu bæst við kaupverðið ef leikmaðurinn stendur sig vel á Anfield.

Félagaskiptin hafa legið lengi í loftinu, Thiago hefur verið orðaður við Liverpool í allt sumar, en um tíma benti allt til þess að hann færi ekki til Bítlaborgarinnar.

Klopp tókst hins vegar að sannfæra forráðamenn félagsins um að Thiago væri rétti maðurinn fyrir félagið.

„Ég hef ekkert að segja,“ sagði Klopp þegar hann var spurður út í komu Thiago til félagsins.

„Ég hef aldrei tjáð um orðróma og sögusagnir og þannig hefur það alltaf verið.

Þegar kemur að því að tilkynna eitthvað þá verðið þið fyrstir til að fá símtal frá mér,“ bætti stjórinn við í samtali við Sky Sports.

mbl.is