Thiago á leið til Liverpool

Thiago Alcantara í leik með Spánverjum gegn Úkraínu fyrr í …
Thiago Alcantara í leik með Spánverjum gegn Úkraínu fyrr í þessum mánuði. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Thiago Alcantara er á leið til Liverpool frá Evrópumeisturum Bayern München, samkvæmt enskum fjölmiðlum.

Leikmaðurinn fór sjálfur ekki dult með áhuga sinn á að fara til ensku meistaranna í sumar og Sky Sports segir að Liverpool hafi ákveðið að taka af skarið og fá hann í sínar raðir. Talið var að það myndi fara eftir því hvort Georgino Wijnaldum myndi skrifa undir nýjan samning eða ekki en Sky Sports segir að Liverpool hafi ákveðið að kaupa Thiago, hvernig sem það mál fer.

Kaupverðið er sagt vera 20 milljónir punda og upphæðin gæti með ýmsum bónusum farið upp í 27 milljónir.

Thiago er 29 ára gamall, fæddur á Ítalíu en á brasilíska foreldra og flutti síðan til Spánar 14 ára gamall þegar hann gekk til liðs við Barcelona. Þar var hann til ársins 2013 þegar Bayern München keypti hann fyrir 25 milljónir evra. Hann hefur leikið með öllum landsliðum Spánar frá 16 ára aldri og á að baki 39 A-landsleiki fyrir Spán.

Thiago hefur verið gríðarlega sigursæll með Bayeren og orðið þýskur meistari öll sjö árin sem hann hefur spilað með félaginu, ásamt því að verða bikarmeistari fjórum sinnum og svo loks Evrópumeistari í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert