Efaðist um metnaðinn og hugarfarið

José Mourinho sýnir takta á hliðarlínunni.
José Mourinho sýnir takta á hliðarlínunni. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham hældi franska miðjumanninum Tanguy Ndombélé á hvert reipi eftir að hann skoraði sigurmarkið gegn Lokomotiv Plovdiv í 2. umferð Evrópudeildarinnar í Búlgaríu í gær.

Mourinho og Ndombélé voru ekki miklir mátar á síðasta tímabili og Frakkinn virtist ekki eiga framtíð fyrir sér hjá Lundúnaliðinu. Mourinho segir að það sé liðin tíð.

„Tanguy er á mikilli uppleið. Á síðasta tímabili var hann það ekki, þá var hann fastur í ástandi sem virtist ekki ætla að batna. Nú æfir hann gríðarlega vel, hefur náð sér af meiðslum, er orðinn líkamlega sterkari, og í þessum leik gaf hann liðinu það sem það vantaði á síðasta hálftímanum,“ sagði Mourinho.

„Nú trúi ég á hann. Ég efaðist aldrei um hæfileikana, aldrei. Ég var hins vegar á tímabili efins um metnað hans og hugarfar. Núna hef ég fulla trú á honum. Við ákváðum að hann yrði ekki í byrjunarliðinu í þessum leik því hann er ekki kominn í fulla æfingu en ég er viss um að hann á eftir að gera það gott með okkur,“ sagði Portúgalinn.

Ndombélé skoraði sigurmark Tottenham á 85. mínútu, 2:1, en Búlgararnir höfðu komist yfir þegar 20 mínútur voru eftir. Þeir misstu síðan tvo menn af velli með rauð spjöld og Harry Kane jafnaði úr vítaspyrnu. Tottenham sækir heim Shkendija til Makedóníu í 3. umferð keppninnar.

mbl.is