Hver á að vera leiðtoginn? (myndskeið)

Frank Lampard knattspyrnustjóri Chelsea þarf að finna leiðtoga í sínu liði ef hann ætlar að skáka Liverpool og Manchester City í toppbaráttunni í vetur segir Owen Hargreaves, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins í spjalli um viðureign Chelsea og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Liðin mætast síðdegis á sunnudaginn í stórleik helgarinnar og Hargreaves telur að þrátt fyrir að Chelsea hafi styrkt lið sitt talsvert muni Liverpool hafa betur að þessu sinni.

Hargreaves segir að Frank Lampard knattspyrnustjóri Chelsea sé sigurvegari og vilji fara alla leið með liðið. Á þessari stundu sé ekkert verkefni stærra en að mæta Englandsmeisturum Liverpool.

Hargreaves segir að nýju Þjóðverjarnir  Timo Werner og Kai Havertz séu frábærir leikmenn en munurinn á liði Chelsea í dag og þegar Lampard var þar í lykilhlutverki að þá voru margir leiðtogar í liðinu. Petr Cech, John Terry, Lampard sjálfur og fleiri. „Hver á að vera leiðtogi liðsins í dag? Thiago Silva kannski en hann er orðinn 35 ára og spilar ekki alla leiki. Lampard þarf að finna leiðtogann."

Um Liverpool segir Hargreaves að liðið sé frábært en skorti mögulega breidd. Hvað gerist ef van Dijk meiðist? Þá er um allt annað lið að ræða. „Ef Liverpool verður heppið hvað meiðsli varðar vinnur liðið  deildina aftur. Annars er Manchester City tilbúið til að hirða titilinn," segir Hargreaves í meðfylgjandi myndskeiði.

Leikur liðanna hefst klukkan 15.30 á sunnudaginn og er sýndur beint á Símanum Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert