Átti aldrei að vera víti

Ole Gunnar Solskjær fylgist með þungur á brún.
Ole Gunnar Solskjær fylgist með þungur á brún. AFP

„Við byrjuðum mjög hægt og þeir voru mun betri en við. Þeir voru á undan í alla bolta á meðan við brutum klaufalega af okkur. Þeir voru tilbúnari en við,“ sagði svekktur Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United eftir 1:3-tap fyrir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag. 

„Það er margt sem útskýrir þessa frammistöðu, eitt af því er takmarkaður tími til að undirbúa okkur. Þetta er enska úrvalsdeildin og þú verður að vera tilbúinn. Við súpum núna seyðið á því að hafa farið langt í Evrópukeppni á síðustu leiktíð,“ sagði Norðmaðurinn. 

Crystal Palace komst í 2:0 með marki úr víti. David de Gea varði fyrst frá André Ayew, en þar sem hann fór örlítið af marklínunni áður en spyrnan var tekin, fékk Palace annað víti sem Wilfried Zaha skoraði úr. 

„Í fyrsta lagi fannst mér þetta aldrei vera víti, í öðru lagi var þetta vel varið hjá David, í þriðja lagi var þetta réttur dómur því David fór aðeins út af línunni hjá sér og samkvæmt reglunum var þetta réttur dómur, en mér fannst þetta aldrei eiga vera víti,“ sagði Solskjær. 

Hann tók ekki mikið jákvætt úr leiknum í dag. „Ekki mikið. Það var fínt að leikmenn fái að spila 90 mínútur, en það er allt,“ sagði Ole Gunnar Solskjær. 

mbl.is