Ekki eins spenntur fyrir Arsenal í mörg ár

Ian Wright, einn af mestu markaskorurunum í sögu Arsenal, segist ekki hafa verið eins spenntur fyrir byrjun tímabils hjá liðinu í mörg ár og nú.

Arsenal vann Fulham 3:0 á útivelli í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um síðustu helgi og tekur á móti öðru Lundúnaliði í kvöld, West Ham, klukkan 19.

Wright segir að eftir að Mikel Arteta tók við liðinu í desember 2019 hafi orðið miklar framfarir hjá því og sigur þess í bikarkeppninni hafi verið félaginu gríðarlega mikilvægur.

Wright segir að margir leikmanna Arsenal þurfi að bæta sig, þeir eigi meira inni, og það geti ekki verið annað en gott fyrir liðið. Vandamálið í fyrra hafi verið hve lítið miðjumenn liðsins sköpuðu, þeir hafi lagt upp örfá mörk og Pierre-Emerick Aubameyang hafi fengi ákaflega litla þjónustu í framlínunni.

Það gæti breyst með tilkomu Williams sem eigi eftir að gefa liðinu mikið hvað sóknarleikinn varðar, ásamt því að fleiri leikmenn sýni sínar bestu hliðar.

Þetta kemur allt fram í meðfylgjandi myndskeiði en leikurinn í kvöld verður sýndur á Símanum Sport.

mbl.is