Everton lagði nýliðana í sjö marka leik

Dominic Calvert-Lewin skoraði þrennu í dag.
Dominic Calvert-Lewin skoraði þrennu í dag. AFP

Everton lenti í smá basli með nýliða West Brom en vann að lokum sannfærandi sigur í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Everton vann 5:2-sigur gegn West Brom á Goodison Park.

Grady Diangana kom gestunum yfir strax á tíu mínútu leiksins en heimamenn voru þó yfir í hálfleik. Dominic Calvert-Lewin jafnaði metin eftir hálftíma leik og nýi maðurinn James Rodríguez kom Everton yfir á síðustu mínútu hálfleiksins. Skömmu eftir markið fékk svo leikmaður West Brom, Kieran Gibbs, beint rautt spjald fyrir að hrinda Rodríguez í jörðina. Er leikmenn og þjálfara gengu til búningsklefa í hálfleik fékk Slaven Bilic, stjóri West Brom, einnig rautt spjald fyrir að brúka kjaft við dómarann.

Fyrst um sinn virtist liðsmunurinn ekki trufla gestina mikið sem jöfnuðu metin strax á 47. mínútu en Matheus Pereira skoraði með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu. Heimamenn voru þó ekki lengi að snúa taflinu við. Varnarmaðurinn Michael Keane kom þeim aftur yfir á 53. mínútu af stuttu færi eftir að Richarlison skallaði að marki eftir aukaspyrnu Lucas Digne.

Calvert-Lewin bætti svo við tveimur mörkum með stuttu millibili, á 62. og 66. mínútu. Fyrst eftir fyrirgjöf Richarlison og svo aftur af stuttu færi eftir hornspyrnu Rodríguez en skömmu áður kom Gylfi Þór Sigurðsson inn af varamannabekknum, á 65. mínútu.

Everton vann Tottenham í fyrstu umferðinni og er nú með sex stig eftir tvo leiki en West Brom er enn án stiga, tapaði einnig gegn Leicester um síðustu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert