Gleymið Sancho, United þarf varnarmann

Victor Lindelöf átti erfiðan dag á Old Trafford í gær.
Victor Lindelöf átti erfiðan dag á Old Trafford í gær. AFP

„Við getum talað eins mikið og þið viljið um Jadon Sancho en þangað til Manchester United kaupir varnarmann sem getur varist einn á einn mun liðið aldrei vinna ensku úrvalsdeildina,“ sagði Gary Neville, fyrrverandi leikmaður United og núverandi sparkspekingur á Sky Sports, eftir að liðið tapaði 3:1 á heimavelli gegn Crystal Palace í sínum fyrsta leik í gær.

Varnarmenn United voru grátt leiknir af Wilfried Zaha á Old Trafford í gær, framherjinn skoraði tvö mörk. Manchester-liðið keypti hollenska miðjumanninn Donny van de Beek í sumar og hefur verið á höttunum eftir sóknarmanninum Jadon Sancho frá Dortmund en Neville telur liðið þurfa að styrka sig í vörn.

„Þeir verða að styrkja sig í vörn, þeir þurfa snöggan varnarmann sem getur varist einn á einn og elt snögga sóknarmenn. Völlurinn á Old Trafford er stór og þeir Harry Maguire og Victor Lindelöf lenda í vandræðum þarna.“

Manchester United er sagt vilja kaupa Jadon Sancho af Dortmund.
Manchester United er sagt vilja kaupa Jadon Sancho af Dortmund. AFP
mbl.is