Leicester hafði betur í sex marka leik

Leikmenn Leicester fagna í kvöld.
Leikmenn Leicester fagna í kvöld. AFP

Leicester vann 4:2-sigur á Burnley á King Power-leikvanginum í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld í fjörugum leik. Gestirnir komust yfir snemma leiks en heimamenn svöruðu með látum.

Chris Wood skoraði fyrsta mark leiksins, stýrði knettinum framhjá Kasper Schmeichel í markinu eftir fyrirgjöf Charlie Taylor á 10. mínútu en tíu mínútum síðar var staðan 1:1. Harvey Barnes byrjaði þá sókn Leicester og endaði hana á marki þegar hann sendi á Jamie Vardy og kom sér svo inn í teig þar sem boltinn barst aftur til hans og hann skoraði af stuttu færi.

Staðan varð svo 2:1 þegar Erik Pieters skoraði sjálfsmark á 50. mínútu og James Justin kom svo heimamönnum í 3:1 á 61. mínútu með sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki. Jimmy Dunne blés smá spennu í leikinn þegar hann minnkaði muninn í 3:2 fyrir Burnley rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok en Dennis Praet endurheimti tveggja marka forystu Leicester tíu mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Leicester er með fullt hús stiga eftir tvo leiki og á toppnum með markatöluna 7:2 en Burnley var að spila sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu. Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Burnley vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert