Mané sá um tíu leikmenn Chelsea

Sadio Mané skorar fyrsta mark leiksins.
Sadio Mané skorar fyrsta mark leiksins. AFP

Liverpool er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en Englandsmeistararnir heimsóttu Chelsea í dag og fögnuðu 2:0-sigri. 

Vendipunktur leiksins átti sér stað í uppbótartíma í fyrri hálfleik þegar danski miðvörðurinn Andreas Chrstensen fékk beint rautt spjald fyrir að fella Sadio Mané þegar Mané var að sleppa einn í gegn. 

Liverpool nýtti sér liðsmuninn í seinni hálfleiknum og Sadio Mané skoraði fyrsta markið á 50. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Roberto Firmino. Mané var aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar þegar Kepa Arrizabalaga í marki Chelsea gerði sig sekan um hræðileg mistök. Gaf Kepa beint á Mané í teignum og Senegalinn þakkaði fyrir sig. 

Chelsea fékk gott færi til að minnka muninn þegar nýliðinn Thiago hjá Liverpool braut á Timo Werner innan teigs. Jorginho fór á punktinn en Alisson í marki Liverpool varði glæsilega. Fengu bæði lið tækifæri til að skora á síðustu tíu mínútunum en fleiri urðu mörkin ekki. Er Chelsea með þrjú stig eftir tvo leiki og Liverpool sex. 

Chelsea 0:2 Liverpool opna loka
86. mín. Liverpool fær hornspyrnu
mbl.is