City byrjar á góðum útisigri

Kevin De Bruyne fer framhjá Willy Boly í leiknum í …
Kevin De Bruyne fer framhjá Willy Boly í leiknum í kvöld. AFP

Manchester City hóf keppni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld með góðum útisigri á Wolverhampton Wanderers, 3:1.

City lék ekki í fyrstu umferðinni þar sem liðið fékk lengri hvíld vegna þátttökunnar í Meistaradeild Evrópu í ágústmánuði.

Kevin De Bruyne krækti í vítaspyrnu eftir 20 mínútna leik og skoraði úr henni sjálfur. Íslandsvinurinn Phil Foden bætti við marki á 32. mínútu eftir fallegt spil City-manna, þar sem De Bruyne kom aftur við sögu, og sendingu frá Raheem Sterling. City var með 2:0 forystu í hálfleik.

Raúl Jiménez kom Úlfunum inn í leikinn með hörkuskalla eftir góðan undirbúning Daniel Podence á 78. mínútu, 2:1.

Á lokasekúndum uppbótartímans slapp Gabriel Jesus inní vítateig Úlfanna og innsiglaði sigur City, 3:1.

mbl.is