Galið að missa tvo miðverði sama daginn

Jürgen Klopp á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær. AFP

Jürgen Klopp reiknar með því að geta teflt fram hefðbundnu miðvarðapari á nýjan leik í næsta leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, gegn Arsenal á mánudaginn kemur, en tveir miðvarða Liverpool meiddust fyrir leikinn gegn Chelsea í gær.

Þeir Joel Matip og Joe Gomez voru báðir forfallaðir og þar sem búið er að selja Dejan Lovren var miðjumaðurinn Fabinho settur í miðvarðastöðuna við hliðina á Virgil van Dijk.

Klopp sagði á heimasíðu Liverpool í dag að Gomez ætti að verða leikfær en Matip gæti verið frá í tvær til þrjár vikur, eða framyfir landsleikjafríið í október.

„Þetta er galið, þeir duttu út sama daginn, en við eigum Fabinho að og hann lék frábærlega svo það var virkilega gott,“ sagði Klopp en Liverpool vann Chelsea 2:0 á Stamford Bridge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert