Rúnar Alex er kominn til Arsenal

Mikel Arteta, Rúnar Alex Rúnarsson og Edu við undirskriftina í …
Mikel Arteta, Rúnar Alex Rúnarsson og Edu við undirskriftina í dag. Ljósmynd/arsenal.com

Enska knattspyrnufélagið Arsenal kynnti rétt í þessu til leiks íslenska landsliðsmarkvörðinn Rúnar Alex Rúnarsson sem félagið hefur nú gengið frá kaupum á frá Dijon í Frakklandi fyrir tæplega tvær milljónir punda.

Hann skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við Arsenal og tekur strax við treyju númer 13.

„Við viljum að það sé góð samkeppni um allar stöður og við hlökkum til að sjá Alex gefa okkur meiri breidd í markvarðastöðunum," sagði Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal á vef félagsins.

„Það er okkur mikil ánægja að bjóða Alex velkominn í okkar hóp. Við höfum fylgst vel með honum um skeið og samkvæmt okkar greiningu hefur hann mjög góða eiginleika sem við horfum eftir í markvörðum, og sem persóna," sagði Edu, tæknilegur stjóri Arsenal, á vef félagsins.

mbl.is