Greiðslan frá Liverpool að stórum hluta til Barcelona

Nélson Semedo, til hægri, í leik Barcelona og Bayern München …
Nélson Semedo, til hægri, í leik Barcelona og Bayern München í Meistaradeild Evrópu í sumar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Wolverhampton Wanderers var ekki lengi að nýta stóran hluta fjármagnsins sem það fékk fyrir að selja portúgalska sóknarmanninn Diogo Jota til Liverpool.

Hann fór þangað fyrir 40 milljónir punda en í dag festi Wolves kaup á landa hans, bakverðinum Nélson Semedo, frá Barcelona  fyrir 29 milljónir punda.

Semedo er 27 ára gamall og leikur sem hægri bakvörður. Barcelona keypti hann af Benfica fyrir svipaða upphæð fyrir þremur árum og hann hefur leikið 82 deildaleiki með Katalóníuliðinu og samtals 124 mótsleiki. Hann á að baki 13 landsleiki fyrir Portúgal.

Sami fjöldi Portúgala er því áfram í röðum Wolves en hvorki fleiri né færri en tíu portúgalskir leikmenn eru í aðalliðshópi félagsins, auk þess sem knattspyrnustjórinn er landi þeirra, Nuno Espírito Santo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert