Gylfi fór fyrir sínu liði í Fleetwood

Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni í Fleetwood í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni í Fleetwood í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson var fyrirliði Everton þegar liðið heimsótti C-deildarlið Fleetwood í 3. umferð enska deildabikarsins í knattspyrnu í kvöld en leiknum lauk með 5:2-sigri Everton.

Richarlison skoraði tvívegis fyrir Everton í fyrri hálfleik áður en Mark Duffy minnkaði muninn fyrir Fleetwood í 2:1 í upphafi síðari hálfleiks. 

Alex Iwobi, Bernard og Moise Kean bættu svo við þremur mörkum til viðbótar í síðari hálfleik og Everton fer því áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

Gylfi Þór lék allan leikinn á miðjunni hjá Everton og átti góðan leik.

Rúnar Alex Rúnarsson allan tímann á varamannabekk Arsenal þegar liðið fór áfram í sextán liða úrslitin eftir 2:0-útisigur gegn Leicester City.

Christian Fuchs varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 57. mínútu og Edward Nketiah bætti við marki fyrir Arsenal í uppbótartíma.

Þá eru Chelsea og Newcastle bæði komin áfram eftir stórsigra en Chelsea vann C-deildarlið Barnsley á heimavelli, 6:0, þar sem Kai Havertz skoraði þrennu. Þá voru þeir Tammy Abraham, Ross Barkley og Olivier Giroud allir á skotskónum fyrir Chelsea.

Joelinton skoraði svo tvívegis fyrir Newcastle sem vann 7:0-stórsigur gegn D-deildarliði Morecambe á útivelli en Miguel Almirón, Jacob Murphy, Isaac Hayden og Jamaal Lascelles skoruðu sitt markið hver fyrir Newcastle. Þá skoraði Sam Lavelle sjálfsmark í uppbótartíma.

Kai Havertz og Tammy Abraham voru báðir á skotskónum fyrir …
Kai Havertz og Tammy Abraham voru báðir á skotskónum fyrir Chelsea í kvöld. AFP
mbl.is