Liverpool að kaupa annan sóknarmann?

Ismaila Sarr er sagður vera að ganga til liðs við …
Ismaila Sarr er sagður vera að ganga til liðs við Liverpool. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool er sagt vera að kaupa Senegalann Ismaila Sarr af Watford en það er France Football sem greinir frá þessu. 

Sarr hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í sumar en France Football gengur ansi langt í fullyrðingum sínum og segir að Watford og Liverpooll hafi nú þegar náð samkomulagi um kaupverðið á leikmanninum sem er í kringum 32 milljónir punda.

Sarr, sem er 22 ára gamall,  sló í gegn með Watford á síðustu leiktíð eftir að hafa komið til félagsins frá Rennes en enska félagið borgaði 30 milljónir punda fyrir Sarr sem er dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Sarr skoraði sex mörk í 30 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, ásamt því að leggja upp önnur sex mörk fyri liðsfélaga sína.

Liverpool hefur nú þegar fengið þá Diogo Jota og Thiago til liðs við sig í sumar en Jota kostaði 40 milljónir punda og Thiago kostaði 27 milljónir punda.

mbl.is