Sannfærður um að Alli fari hvergi

Jose Mourinho.
Jose Mourinho. AFP

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, áréttaði á blaðamannafundi í dag að enski landsliðsmaðurinn Dele Alli verði áfram í herbúðum Tottenham. 

Nokkur umræða hefur spunnist um að Alli muni hugsanlega yfirgefa Tottenham vegna þess að hann var ekki í leikmannahópi Tottenham í leikjunum gegn Southampton og Lokomotiv Plovdiv. 

Sky Sports fullyrðir að franska stórliðið París St. Germain hafi áhuga á því að fá Dele Alli til liðs við sig. Var Mourinho því spurður hvort Mourinho verði áfram hjá félaginu í vetur. 

„Ég hef fulla trú á því. Ég get meira að segja sagt að ég er sannfærður um að hann sé ekki á förum,“ sagði Mourinho en hann er þeirrar skoðunar að Alli sé ekki nægilega stöðugur í leik sínum. 

„Við vitum öll að frá því að Dele kom frá MK Dons hefur hann verið upp og niður. Hann hefur átt stórkostlega leiki en hann hefur einnig átt leiki þar sem frammistaðan er ekki í háum gæðaflokki. Ég get ekki séð að það hafi breyst. Þegar svo er tel ég ekki óeðlilegt að menn séu í liðinu þegar þeir eru að spila vel en séu ekki í liðinu þegar þeir hafa ekki náð sér á strik. Þegar leikmenn fá tækifæri þá þurfa þeir að sýna á vellinum að þeir eigi heima í liðinu. Engin vandamál fylgja því að hafa hann hjá Tottenham en eins og í tilfelli allra annarra leikmanna þá er það frammistaðan sem skiptir máli,“ sagði Mourinho í dag. 

Dele Alli.
Dele Alli. AFP
mbl.is