Tottenham slapp í umspilið

Erik Lamela (11) fagnar með félögum sínum eftir að hafa …
Erik Lamela (11) fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað fyrsta mark Tottenham í kvöld. AFP

Tottenham er komið í umspilið um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir að hafa komist í hann krappan í Norður-Makedóníu í kvöld.

Lundúnaliðið mætti þar liði Shkëndija og fór vel af stað þegar Erik Lamela skoraði á 5. mínútu. Heimamenn jöfnuðu hinsvegar metin með marki frá Valmir Nafiu snemma í seinni hálfleik.

Heung-Min Son kom Tottenham yfir á ný á 70. mínútu og Harry Kane gulltryggði sigurinn með þriðja markinu tíu mínútum síðar. Son lagði upp mörkin fyrir Lamela og Kane.

Kane lék aðeins síðasta hálftímann í kvöld en José Mourinho sendi hann inn á völlinn í staðinn fyrir Dele Alli eftir að Shkëndija jafnaði metin.

Tottenham fær heimaleik gegn Maccabi Haifa frá Ísrael í umspilinu næsta fimmtudag.

mbl.is