Heima með veiruna en stjórnar samt liðinu

David Moyes er í einangrun.
David Moyes er í einangrun. AFP

David Moyes knattspyrnustjóri West Ham ætlar ekki að láta kórónuveiruna hindra sig í að stýra liði sínu á sunnudaginn þegar lið hans tekur á móti Wolves í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Moyes greindist með veiruna á þriðjudeginn, sem og tveir leikmanna West Ham, þeir Issa Diop og Josh Cullen. Þeir voru mættir til leiks gegn Hull í deildabikarnum en þá komu niðurstöður úr skimun, þremenningarnir voru jákvæðir og þurftu að fara heim.

Alan Irvine, knattspyrnustjóri West Ham, sagði í dag að Moyes myndi eftir sem áður stjórna liði West Ham í leiknum. Hann verði sjálfur á varamannabekknum en í sambandi við Moyes sem fylgist með leiknum í sjónvarpi.

„Allt sem við gerum verður með hans þátttöku og hann mun taka allar ákvarðanir. Hann myndi gera það hvort sem er, en, rétt eins og á þessum fréttamannafundi, er ég bara sendiboðinn," sagði Irvine.

Að hans sögn eru þremenningarnir einkennalausir. „Moyes heldur sínu striki og þeir eru allir þrír svekktir yfir því að geta ekki mætt, en þannig er staðan og þeir vita það. Enginn þeirra finnur fyrir neinu, sem gerir þetta kannski enn meira svekkjandi fyrir þá," sagði Irvine.

West Ham hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni í haust, gegn Arsenal og Newcastle, en hefur á milli leikjanna unnið örugga sigra á Charlton og Hull í deildabikarnum.

mbl.is