Liverpool án fyrirliðans í stórleiknum

Jürgen Klopp og Thiago Alcantara eftir sigurinn á Chelsea um …
Jürgen Klopp og Thiago Alcantara eftir sigurinn á Chelsea um síðustu helgi. Liverpool tekur á móti Arsenal á mánudagskvöldið. AFP

Jordan Henderson fyrirliði Englandsmeistara Liverpool verður ekki með liðinu þegar það fær bikarmeistara Arsenal í heimsókn í stórleik þriðju umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á mánudagskvöldið.

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri sagði á fréttamannafundi nú í hádeginu að Henderson þurfi meiri hvíld. Hann er nýkominn uppúr meiðslum og spilaði fyrri hálfleikinn gegn Chelsea um síðustu helgi.

Klopp sagðist ekki eiga von á öðru en Joe Gomez myndi æfa með liðinu á ný í dag og vera klár fyrir leikinn gegn Arsenal en hann var frá vegna meiðsla gegn Chelsea. Líka hinn miðvörðurinn, Joel Matip, en hann er ekki byrjaður að æfa.

Klopp var spurður hvort Thiago Alcantara kæmi til greina í byrjunarliðið en hann kom inn á sem varamaður gegn Chelsea og sýndi góða takta. 

„Sjáum til, sjáum til. Við eigum eftir að æfa nokkrum sinnum, sumir þurfa að jafna sig eftir gærkvöldið (leik gegn Lincoln í deildabikarnum), og svo sjáum við til hvernig við stillum þessu upp gegn Arsenal. Ég hef ákveðnar hugmyndir en því skyldi ég ákveða eitthvað í dag þegar ég hef tíma fram á mánudag til þess? En hann kemur vissulega til greina," sagði Þjóðverjinn.

mbl.is